IMG_2845

Hér eru nokkur sjónarmið sem hafa má í huga  til að hjálpa við ákvarðanatökuna.

Tæknilegt: Hjólagerð: fjallahjól, blendingur, borgarhjól, dekkjastærð (26/28/29 tommu), gerð og fjöldi gíra, vökva eða vírabremsur, diska eða gjarðabremsur.

Fagurfræðilegt.
Hvaða útlit kitlar hjá mér fagurkerann?  “Mikið er þetta bleika hjól með blómamynstrinu fallegt”.

Hagnýtt. „Sko þegar ég er komin(n) á gott hjól ætla ég alltaf að hjóla í vinnuna.“ „Gaman væri nú að komast líka í hjólaferð um hálendið í sumar.“ „Þetta er nú bara til að hjóla á góðviðrisdögum um helgar.“ „Ég ætla að taka þátt í hjólakeppum í sumar.“ „Ég vil gjarnan sitja upprétt(ur).“ „Ég vil geta hjólað í kjól og hafa körfu á stýrinu.“

Raunsætt. Hvað sætti ég mig við að nota mikinn pening í þetta verkefni?

Persónulegt. Mig langar að breyta um lífsstíl, koma mér í gott form og hjóla meira. Hvernig hjóli langar mig til að hjóla á?

Semsagt, hvernig hjól langar mig í? Hvernig hjól hentar mér? Hvernig hjóli hef ég efni á?

Hjólagerðir

Kappreiðahjól (Racer). Gerð til að fara hratt yfir, með mjóum 28 tommu dekkjum fyrir sléttar götur. Gírar 16-30 eftir verði. Henta illa á ósléttum götum. Mjög framlág stelling til að minnka loftmótstöðu, með framlágu „hrútastýri“. Ekki hentug fyrir byrjendur.

Fjallahjól.  Algengustu hjólin í seinni tíð. Með sverum dekkjum og 18-30 gírum. Vel nothæf í malbikssnatt en henta einnig vel á malarvegum og slóðum. Hægt að fá fyrir upprétta stöðu (comfort)  og framlága (sport).

Blendingar (hybrid).
Eða „bastarðar“ eins og sumir vilja kalla þau. Mitt á milli fjallahjóls og götuhjóls. Framlág (sport) stelling, 28-29” miðlungsþykk dekk, 18-30 gírar. Hjól sem henta vel sem ferðamáti til og frá vinnu en þola einnig betri malarvegi.

Götuhjól - Þægindahjól. (comfort) Afbrigði af fjallahjólum og blendingum þar sem setið er sem mest upprétt í þægilegri stellingu. Hafa breiðari hnakka með meiri dempun. Henta fyrir þá sem vilja spóka sig og/eða ferðast í rólegheitum milli staða.

Stærð

Mikilvægt er að velja „rétta“ stærð. Rétt stærð er sú stærð sem þér líður vel með. Þumalputtareglur eru:  Þegar staðið er klofvega yfir hjólinu þá á toppsláin að vera 3-6 sentimetra fyrir neðan klof á blendings- og götuhjóli en fyrir fjallahjól er miðað við 3-10 sentimetra.  Valin eru minni fjallahjól ef ætlunin er að leika sér í ófærum og erfiðum stígum.  Ef valið er kappreiðahjól skiptir máli að vera nákvæmari í mælingum. Þá skal mæla hæð og innanfótarlengd á legg og velja stærð eftir ráðleggingum framleiðanda.  

Hægt er að fínstilla stærð með stýrisarmi (stamma), hnakki og sætispípu en stillingar er önnur saga. Stillingar á hjólum eru mjög persónubundnar. Verið ófeimin við að prófa mismunandi stillingar á hnakk, stýri og stýrisarmi til að finna þá stillingu sem hentar þér best.

 

Innkaupin

Mikilvægt er að vera viss af hverju maður er að kaupa reiðhjól og kynna sér hjólagerðir og eiginleika og ákveða gerð hjólsins sem á að kaupa. Gott er að gefa sér tíma til að fara í sem flestar hjólaverslanir, skoða úrvalið og ræða við sölumenn. Þannig er hægt að kynna sér mögulega valkosti í öllum verslunum.

Þegar búið finna vænlega valkosti er að prófa, prófa og prófa. Best er að fá sölumenn til að pumpa rétt í dekkin, stilla hnakk og fara síðan í prufutúr. Þó hjólið uppfylli öll þau skilyrði sem sett voru fram þá kemur ekki í ljós hvort það passar fyrr en prófað er.

Þegar hringurinn fer að þrengjast og valið stendur ef til vill á milli tveggja eða þriggja hjóla á svipuðu verðbili og í sambærilegum gæðaflokki vandast valið.  Þá er gott að meta þjónustuna í versluninni og þá ábyrgð sem er í boði.  Ef maður fær frábæra þjónustu er oft auðveldara að taka ákvörðun. Að lokum er um að gera að láta tilfinninguna ráða og leyfa sérviskunni að ráða för varðandi lit, stíl og það sem mætir flestum (eða öllum kröfum manns) óháð nokkrum krónum til eða frá.

Þegar allt kemur til alls snýst málið um að taka ákvörðun sem manni líður vel með og uppfyllir þær væntingar. Hvaða hjól veitir mér mesta ánægju að eiga og nota?

Einar Kristinsson