Þú getur þetta! - Mýtur kveðnar niður

IMG_1644

Hvað þarf að gera til að hjólreiðar verði raunhæfur kostur fyrir þig?

Við þekkjum það öll að vera föst í viðjum vanans og finna okkur ýmsar ástæður til að viðhalda þeim. En er hægt að hafa áhrif á þig? Viltu skipta um gír? Hvaða hindrar þig í að gera hjólreiðar að lífsstíl þínum?

 

Formið batnar fljótt við hjólreiðar.

  • Hjólaðu  rólega í byrjun.
  • Veldu eigin hraða og taktu þér tíma.
  • Kannaðu umhverfi þitt og finndu hentugustu leiðirnar fyrir þig.
  • Líkamsástand þitt mun batna ef hjólreiðar verða hluti af lífsstílnum, kílóin hverfa í framhaldinu.
  • Hjólaðu í léttum gír upp brekkur og í miklum mótvindi og einbeittu þér að því að minnka álag á hnén.

 

Er leiðin svo löng?

  • Eftir því sem styrkur þinn eykst breytist hugarfar þitt gagnvart vegalengdum.
  • Prófaðu að hjóla í vinnuna og taka strætó heim á kvöldin.  Leyfilegt er að taka hjól með í suma vagna.
    Skipulegðu hjólreiðarnar í tengslum við almenningssamgöngur.
  • Hjólaðu til vinnufélaga og verið samferða hluta leiðarinnar, það er gaman að hjóla með öðrum.

 

kortersKort

 

Á 15 mín. nærðu að hjóla hálfa borgina.

  • Stuttar ferðir taka minni tíma á hjóli en bíl.
  • Ferðir sem eru 7-10 km taka álíka langan tíma á bíl og hjóli á annatímum innanbæjar.
  • Skoðaðu korterskortið , á 15 mínútum nærð þú að hjóla hálfa borgina.
  • Í minni sveitafélögum tekur aðeins nokkrar mínútur að fara þorpið á enda.
  • Leitin að bílastæðum er úr sögunni, það sparar tíma.
  • Það er mjög skemmtilegt að taka fram úr bílaröðinni á háannatímum.
  • Á vef bikecitizens.net má sjá hversu langt þú kemst á mis löngum tíma. Hér má sjá hversu langt þú gætir hjólað frá Hlemm á annars vegar 5 mínútum og hinsvegar 15 mínútum.

 

 

En hvaða leið er best?

  • HjólavefsjáinLeiðin sem þú ert vön/vanur að fara á bílnum er ekki endilega sú heppilegasta fyrir hjólið.
  • Stígar liggja víða þar sem ekki eru götur, t.d. í Fossvogsdal.
  • Með Hjólavefsjánni getur þú fengið tillögur að leiðum milli staða. Það þarf bara að draga græna hjólið á staðsetningu þína á kortinu og rauða stopp merkið á áfangastað og vefsjáin teiknar leið fyrir þig.
  • Kortið sýnir líka hvar göngustígar liggja og þannig gætir þú stytt leið þína og séð nýja hlið á borginni.
  • Nýlega kom bikecitizens.net með sambærilegan vef með hjólavefsjá sem finnur hentuga leið eftir þeim forsendum sem þú velur
  • Ef þú ert með snjallsíma getur þú líka náð í appið og fengið leiðsögn jafnóðum.

 bikecitizens phone english1 1000x0 c default

Góðir geymslustaðir leynast víða

Góðir geymslustaðir leynast víða

  • Góðir geymslustaðir fyrir hjólið leynast víða, t.d. í kompu eða við svalir
  • Taktu hjólið inn ef mögulegt er.
  • Óskaðu formlega eftir því við atvinnurekanda að hann bæti geymsluaðstöðu fyrir reiðhjól. 
    Bætt heilsa starfsmanna  er allra hagur.
  • Notaðu tryggan lás til að læsa stellið við eitthvað.

 

Hjólið mitt er gamalt

  • Vertu viss um að hjólið sé í góðu lagi áður en þú ferð af stað, þó sérstaklega bremsurnar.
  • Kannski þarf bara að stilla hjólið? Ef það bremsar illa, skiptir illa um gíra eða dekkið rekst í brettið með hávaða eru það smávægilegar viðgerðir.
  • Reiðhjól þurfa viðhald líkt og önnur farartæki. Farðu með hjólið þitt í viðgerð og láttu yfirfara það.
  • Lærðu að stilla hjólið þitt svo þér líði betur á hjólinu.
  • Sækja má upplýsingar um reiðhjólaviðhald á netið.
  • Farðu á viðgerðarnámskeið og lærðu að viðhalda hjólinu þínu.
  • Fáðu þér nýtt hjól. Það borgar sig fljótt upp í öðrum sparnaði.

 

Þarf sturtu eftir hverja hjólaferð?

Sturtu og búningsaðstaða
  • Hjólaðu rólega í vinnuna svo að þú svitnir minna.
  • Þeir sem eru vanir að hjóla styttri leiðir ættu alls ekki að þurfa sturtu frekar en eftir gönguferð.
  • Skoðaðu hvort þú sért hugsanlega of mikið klædd/ur á hjólinu, það þarf lítinn fatnað meðan hjólað er.
  • Notið svitalyktareyði undir armana.
  • Hægt er að taka með sér þvottapoka í vinnuna.
  • Athugaðu hvort það er aðstaða annars staðar í húsinu sem þú getur fengið aðgang að.
  • Hjólaðu af meiri krafti heim og farðu  í sturtu á eftir.

 

Ég þarf að vera uppáklædd/ur í vinnunni

Hjólað í jakkafötum
  • Fáðu þér bögglabera og töskur undir föt.
  • Fáðu þér góðan bakpoka.
  • Hafðu nokkur sett af fötum og 1-2 skópör í vinnunni.
    Taktu skyrtur/boli og hrein undirföt daglega með þér.
  • Hafðu fötin með þér dags daglega, gott er að rúlla upp dröktum, skyrtum og jakkafötum í stað þess að brjóta saman.
  • Settu fötin í hreinsun í nágrenni við vinnustað þinn.

 

Þarf ég sérstök hjólaföt?

  • Notaðu þinn venjubundna klæðnað þegar veður og aðstæður leyfa.
  • Notaðu það sem þú átt í skápunum.
  • Notaðu venjulega skó.
  • Bolur og vindheldur jakki duga í flestum veðrum og gott ef loftar aðeins um líkamann.
  • Fötin og annar útbúnaður kemur smátt og smátt og endist lengi.

 

Ekki þörf á sérstökum hjólafötum

 

Veðrið og rigningin

Hress á hjólinu
  • Er veðrið svo slæmt þegar þú ert komin(n) út?
  • Reiknaðu með aðeins meiri tíma ef það er mótvindur.
  • Hjólaðu í léttum gír eins og þú værir að hjóla upp brekku.
  • Áttu ekki vatnshelda flík í fataskápnum? Ef ekki er kominn tími til að eignast hana.
  • Ef þú ert í vinnunni þegar byrjar að rigna og ekkert vatnshelt til staðar, taktu þá strætó heim eða fáðu far.
  • Njóttu þessa að þjóta heim, blotna á leiðinni og fara í þurrt heima.
  • Gerðu ráðstafanir til að mæta íslenskri veðráttu, til dæmis með því að hafa ætíð auðpakkanlegan hlífðarjakka  meðferðis.
  • Gerðu ráðstafanir til að vera sýnilegur. Notaðu ljós og annan búnað til vera sýnilegur í myrkri og lélegu skyggni.

 

Ég finn til óöryggis á götunum

IMG_1847
  • Kynntu þér tækni Samgönguhjólreiða. Sú tækni kennir þér að takast á við umferðina í stað þess að hræðast hana.
  • Vertu sýnileg(ur) í umferðinni og taktu þitt pláss.
  • Fylgdu ávallt almennum umferðareglum.
  • Því fleiri hjólreiðamenn sem nota göturnar til samgangna því meira tillit fá þeir frá ökumönnum.
  • Hjólaðu á gangstéttum og stígum ef það eykur öryggiskennd þína.
  • Notaðu reiðhjólahjálm ef það eykur öryggiskennd þína.

 

Ég þarf að snúast í og eftir vinnu

IMG_2700
  • Fáðu þér bögglabera og töskur á hjólið.
  • Skoðaðu einnig farangursvagna og barnakerrur.
  • Fáðu þér góðan lás til að geta læst hjólinu þínu með traustum hætti við eitthvað.
  • Ræddu við vinnuveitanda þinn og fáðu að ferðast um á hjólinu í vinnutíma.
  • Athugaðu hvort atvinnurekandinn vill útvega hjól sem starfsmenn geta notað til snúninga á vinnutíma.
  • Skipuleggðu vikuna. Notaðu bílinn einn dag í viku. Gerðu allar útréttingar þann dag og gerðu stórinnkaup í leiðinni.

 

Það hjólar enginn á mínum vinnustað

  • Láttu það ekkert á þig fá og haltu þínu striki.
  • Þú þarft ekki að vera lengi einn á báti, áður en þú veist af ertu kominn með félagsskap. 
  • Það er mikil hjólavakning núna og margir að hjóla allan ársins hring.

 

Hvað geri ég með ótal gíra?

  • Gírar auðvelda hjólreiðar, léttur gír gerir brekkur auðveldar og þungur gír gefur góðan hraða.
  • Stilltu keðjuna á miðtannhjólið að framan. Einbeittu þér að því að stilla afturtannhjólin í fyrstu.
  • Litla tannhjólið að framan er fyrir brekkur, „lágt drif“ og er notað með þremur léttustu gírunum að aftan.
  • Stóra tannhjólið er fyrir hraða siglingu, „hátt drif“ og er notað með þremur þyngstu gírunum að aftan.
  • Fáanleg eru hjól með innbyggðum gírum. Fleiri gírar gera hjólreiðar auðveldari. 7 gírar og yfir duga í flest.

 

Hvað með þessar handbremsur?

  • Lærðu að treysta handbremsunum.
  • Hægri bremsan er að aftan, vinstri bremsan að framan. 
  • Bremsaðu bæði að framan og aftan
  • Aldrei bremsa bara að framan
  • Láttu skipta reglulega um bremsupúða.
  • Hjól með fótbremsum eru líka fáanleg.

 

Hvað geri ég í haust þegar fer að kólna?

IMG_1978
  • Bætir á þig hlýrri flíkum og finnur góða vetrarskó.
  • Kaupir þér öflug ljós og lætur setja nagladekk undir.
  • Og hjólar svo líka um veturinn. Engir gluggar að skafa.

 

Hvað með mengunina?

  • Ökumenn anda að sér meiri mengun en hjólreiðamenn sem sitja ofar og lungu þeirra hreinsa sig vegna hreyfingarinnar öfugt við lungu bílstjóranna.

 

Konur og karlar eru ekki sköpuð eins!

  • Konur hafa styttri búk og lengri fótleggi en karlar.
  • Það má aðlaga karlahjól konum:
  • Breidd stýris má minnka í samræmi við breidd herða.
  • Setja stýrið á styttri og/eða hærri stýrisarm (stamma) ef stellingin á hjólinu er ekki nógu þægileg.
  • Skipta karlahnakkinum út með breiðari kvennahnakk.

Guðný Einarsdóttir og Páll Guðjónsson