Cycle chic (sækúl shjík) byrjaði með einni mynd Mikael Colville-Andersen sem vakti mikla athygli honum að óvörum. Myndin var ósköp venjuleg í hans augum, hún sýndi konu í pilsi og kápu, með handtöskuna sína á bögglaberanum stoppa við gangbraut. Ekkert óvanaleg sjón í Kaupmannahöfn en þeim mun óvenjulegri í augum þeirra sem búa í löndum þar sem hjólreiðar eru jaðarsport en ekki venjulegur samgöngumáti, þar sem hefur gleymst að það er ekkert flókið að hjóla, það þarf ekki að klæðast sérstökum búningi, og það má hjóla á allskonar hjólum. Fólk í Kaupmannahöfn skilgreinir sig ekki sem hjólafólk þó það hjóli flestra sinna ferða. Það er bara venjulegt fólk í sínum venjulega fatnaði að sinna sínum venjulegu ferðum með því farartæki sem best hentar.
1997 byrjaði hann með myndablogg á vefnum copenhagencyclechic.com sem fljótlega vakti heimsathygli. Þar sýnir hann hvernig danir koma á hjólinu eins og þeir eru klæddir, hvort sem þeir eru á leið í vinnuna eða dressaðir upp á leið á ball. Í dag eru á sjötta tug myndabloggsíðna um allan heim sem kenna sig við cycle chic og ótal aðrar í sama anda, sjá tengla neðst á þessum vef. Allir eru þessir vefir mikilvægir til að sýna að hjólreiðar henta öllum, að það er jafn sjálfsagt að hjóla milli staða og að ganga og að slíkar samgönguhjólreiðar eiga ekkert skylt við áhættusport.
Stelpur með stíl og hjólið aðeins fylgihlutur
Stefnuskrá Copenhagen Cycle Chic
- Ég kýs að hjóla um með stíl og vel alltaf stíl umfram hraða.
- Ég fagna hlutverki mínu við að gefa borginni fegurra yfirbragð.
- Vera mín í borgarumhverfinu mun hvetja aðra áfram án þess að ég sé stimpluð aðgerðasinni.
- Ég hjóla um með reisn, glæsileika og virðingu.
- Ég vel mér hjól sem endurspeglar persónuleika minn og stíl.
- Ég lít samt aðeins á reiðhjólið sem farartæki og viðbót við minn persónulega stíl. Hjólið má aldrei vera flottara en ég.
- Ég mun leitast við að hafa fötin mín ávallt verðmeiri en hjólið.
- Ég aðlaga mig hjólamenningunni með fylgihlutum á hjólið svo sem keðjuhlíf, standara, pilshlíf, bretti, bjöllu og körfu.
- Ég fylgi ávallt umferðarlögunum.
- Ég mun forðast að klæðast eða eignast hverskyns hjólafatnað. Eina undantekningin er ef ég kýs að nota reiðhjólahjálm og þá leitast ég við að kynna mér vísindin um kosti þeirra og takmarkanir.
Skoðið copenhagencyclechic.com og aðrar cycle chic síður, sem eru listaðar þar, sem sýna skemmtilega hjólamenningu víðsvegar um heiminn.
Myndir © Páll Guðjónsson.
Finnið myndina sem brýtur reglurnar