Langar þig til að hjóla í hóp en veist ekki hvert þú ættir helst að leita? Aldrei áður hafa verið eins margir hjólahópar sem skipuleggja hjólaferðir og æfingar sem standa öllum opnar. Þú ert líka velkomin/n !
Allir ættu að finna ferð við sitt hæfi því ferðirnar eru jafn fjölbreyttar og þær eru margar. Hvort heldur sem þú vilt fara rólega með börnunum, spjalla og skoða umhverfið líkt og í ferðum Fjallahjólaklúbbsins, Landssamtaka hjólreiðamanna og Útivistar.
Eða taka hraustlega á því á æfingu með sportfélögunum og hjóla kannski með Íslandsmeisturunum. Það er til hópur sem hentar þér. Hér verða taldir upp þeir helstu sem við vitum um og eru opnir. Allt birt með fyrirvara, rétt er að lesa sér betur til á heimasíðum félaganna.
Íslenski Fjallahjólaklúbburinn (ÍFHK) er fyrir alla sem nota reiðhjól sem samgöngutæki þrátt fyrir þetta gamalgróna nafn.
Hann er með fjölbreytta dagskrá allt árið sem vert er að skoða; opið hús, léttar hjólaferðir um borgina og fjölbreitt ferðalög sniðin allt frá fjölskyldum til harðjaxla.
Vikulegar kvöldferðir á sumrin
Þar á meðal eru þriðjudags kvöldferðirnar, vikulegar fjölskylduvænar ferðir um höfuðborgarsvæðið fram á haust. Þessar ferðir eru farnar frá Fjölskyldu og húsdýragarðinum kl 19:30 og eru um 2 klst langar. Fyrstu ferðirnar eru stystar en smá lengjast eftir því sem líður á sumarið. Farið er að mestu eftir útivistarstígum eftir fyrirfram ákveðnum leiðum en hraðinn ræðst af hópnum hvert skipti. Markmið ferðanna er að kynna og skoða hjólaleiðir á höfuðborgarsvæðinu svo reiðhjólið nýtist okkur betur sem samgöngutæki og afþreying. Þessar ferðir henta öllum, byrjendum, görpum og börnum niður í 10 ára í fylgd foreldra eða forráðamanna.
Hér er dagskrá fyrir hjólaferðir um höfuðborgarsvæðið sem allir ættu að ráða við.
Hittumst í opnu húsi.
Á Brekkustíg 2 er opið hús eftir kl. 20 fyrsta og þriðja fimmtudagskvöld hvers mánaðar. Á efri hæðinni er spjallað og gluggað í blöð og bækur á bókasafninu okkar og viðgerðaraðstaðan á neðri hæðinni stendur félagsmönnum til boða til að græja hjólið og nýta sér sérhæfð verkfæri sem ekki allir eiga.
Fylgist með dagskránni á fjallahjolaklubburinn.is, það er alltaf eitthvað í gangi. Skráið ykkur á póstlistann til að fá tilkynningar um viðburði sem oft eru skipulagðir með stuttum fyrirvara því við viljum hafa gaman af lífinu og skipuleggjum okkur ekki um of. Einnig fljóta ýmsar hjólafréttir og fróðleiksmolar með á póstlistann.
Verið ófeimin við að kíkja í heimsókn því opið hús er fyrir allt hjólafólk og vini þeirra.
Afslættir til félagsmanna.
Allar helstu hjólaverslanir og einnig tugir annarra aðila veita félagsmönnum ÍFHK veglegan afslátt gegn framvísun félagsskírteinis.
Styðjið við starfsemina, takið þátt.
Félagsgjald er aðeins 2500 kr., 3500 kr. fyrir fjölskyldur og 1500 kr. fyrir yngri en 18 ára. Á vef klúbbsins eru upplýsingar um hvernig best er að hafa samband við okkur og ganga í klúbbinn og þá afslætti sem félagsmönnum bjóðast. www.fjallahjolaklubburinn.is
Hjólreiðamenn eiga sér sameiginleg baráttumál og samstarfsvettvangur þeirra eru Landssamtök hjólreiðamanna.
Markmið ÍFHK er að auka reiðhjólanotkun og vinna að bættri aðstöðu hjólreiðafólks til samgangna og mikið af þeirri vinnu fer fram innan LHM í góðri samvinnu við fólk í hinum félögunum. Á vef LHM blómstrar líka hjólamenningin með fjölbreyttum fréttum víðs vegar að ásamt fræðilegri umfjöllun í pistlum safn tengla um staðla og rannsóknir.
Allir félagar í ÍFHK, HFR og Hjólamönnum eru jafnframt í Landssamtökum hjólreiðamanna (LHM).
Þessi vefur hjólreiðar.is er samstarfsverkefni LHM og ÍFHK og er ætlað að hvetja til hjólreiða og stuðla að auknu öryggi með því að kenna grunnatriði samgönguhjólreiða.
Landssamtök hjólreiðamanna og Hjólafærni á Íslandi hafa undanfarna vetur staðið fyrir léttum hjólaferðum yfir vetrarmánuðina. Þær eru ókeypis og opnar öllum. Það er hjólað á götum þegar það hentar og gott fyrir nýliða að kynnast tækni samgönguhjólreiða í þessum hóp.
Hjólreiðafélag Reykjavíkur er íþróttafélag innan Íþróttabandalags Reykjavíkur. Markmið HFR er að efla hjólreiðar sem íþrótt á Íslandi.
Félagið stendur fyrir keppnum bæði á fjalla- og götuhjólum, auk þess sem á vegum félagsins eru stundaðar æfingar reglulega.
Hjólreiðafélag Reykjavíkur er u.þ.b. 70 ára gamalt og hefur verið virkt af og til þann tíma. Félagið hefur staðið fyrir flestum hjólreiðakeppnum sem haldnar hafa verið hér á landi á þessum 70 árum, og krýnir á hverju ári bæði Íslands- og bikarmeistara í bæði fjalla- og götuhjólreiðum.
„Upphaf félagsins má rekja aftur til ársins 2008 þar sem Ólafur Baldursson sat við eldhúsborðið heima hjá foreldrum sínum og var að undirbúa sig fyrir hjólreiðakeppni frá Reykjavík til Akureyrar. Móðir Óla horfir á hann og segir „Óli minn, þú ert bjartur“. Óli stóð upp frá eldhúsborðinu og vissi strax að þarna var komið nafn á félagið sem hann ætlaði að skrá til keppni. Engar hetjusögur fara af þessari Akureyrarferð, en síðan þá hefur félagið safnað til sín öllum bestu hjólreiðamönnum landsins.
Íþróttafélagið var formlega stofnað 19. október 2011 og er Bjartur fyrsta hjólreiðafélagið í Hafnarfirði. Allir félagar hafa það sameiginlegt að elska hjólreiðar og eru ekkert að taka sig of alvarlega. Félagar í Bjarti hafa verið sýnilegir í öllum helstu hjólreiðakeppnum landsins.
Allir eru velkomnir í félagið sem geta hjólað. Stjórnin er skipuð fimm trúðum sem líta á sig sem skraut. Eitt af markmiðum stjórnar er að tryggja að félagsmenn fái frið til að hjóla.“
Nánari upplýsingar á vefnum bjartur.org
„Hjólreiðafélagið Tindur var stofnað í Febrúar 2011 með það markmið að fjölga í og bæta keppnishjólreiðar, af öllum gerðum, á Íslandi. Við höfum það einnig að markmiði að stækka og bæta ímynd allra tegunda hjólreiða, hvort sem það eru samgönguhjólreiðar, keppnishjólreiðar eða bara hjólreiðar til skemmtunar. Tindur er löglegt íþróttafélag undir ÍSÍ - allir eru velkomnir í félagið.“
Nánari upplýsignar: tindur.org
Hjólreiðafélag Akureyrar var stofnað 2. maí 2012. Tilgangur félagsins er að efla hjólreiðar á Akureyri og í nágrenni. Kynna hjólreiðar sem jákvæða hreyfing og glæða áhuga almennings á gildi þeirra. Einnig skal félagið standa fyrir fræðslu og forvörnum er snúa að bættum hjólreiðasamgöngum.
Nánari upplýsingar: hfa.is
Þríþrautarnefnd ÍSÍ heldur úti vefnum triathlon.is og þar má finna önnur þríþrautarfélög. Sjá nánar: triathlon.is
„Hjólaræktin hefur starfað í allnokkur ár, en sífellt fleiri uppgötva hvað reiðhjólið er frábært til ferðalaga. Fastir liðir eru hjólatúrar á höfuðborgarsvæðinu á laugardögum yfir vetrartímann en þegar kemur fram á sumar er stefnan gjarnan tekin á lengri túra.“
Sjá nánar hér um hjólaferðir Útivistar
Heimasíða: www.utivist.is
Facebook síða: https://www.facebook.com/utivist
Hjólafærni á Íslandi býður upp á ýmiss konar hjólatengda fræðslumiðlun, m.a. er boðið upp á kennslu í samgönguhjólreiðum auk fyrirlestra og að koma með hjólatengda viðburði á vinnustaði eða skóla.
Samgönguhjólreiðar. Hádegisfyrirlestur um allt sem þarf að vita um hjólreiðar.
Dr. Bæk mætir með tæki og tól, leiðbeinir með létt viðhald á hjólinu meðan hann fer yfir það og gefur út hjólavottorð.
Hjólakennsla fyrir 2. – 4. manna hópa sem hljóta leiðsögn frá hjólafærnikennara.
Viðburðir. Dr. Bæk kemur á vorhátíðina eða aðstoðar við hjóladaga í skólanum eða fyrirtækinu.
Frá árinu 2003 hefur Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands staðið myndarlega að því að efla hreyfingu og starfsanda á vinnustöðum með heilsu- og hvatningarverkefninu „Hjólað í vinnuna“.
Megin markmið verkefnisins er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta.
Þátttakendur eru hvattir til þess að hjóla, ganga, hlaupa eða nýta almenningssamgöngur til og frá vinnu í þrjár vikur í upphafi maímánaðar ár hvert.
Starfsmenn vinnustaða hér á landi hafa tekið vel við sér því þátttakan margfaldaðist árin eftir að verkefnið fór af stað og hefur fjöldi þáttakanda náð yfir 11 þúsund sum árin.
Nánar hér: hjoladivinnuna.is
Hjólreiðasamband Íslands er sérsamband innan ÍSÍ og hét áður Hjólanefnd ÍSÍ og heldur úti vefnum Hjólamót.is
Vefurinn Hjólamót.is var hannaður til að færa alla starfsemi í kringum mótshald í íslenskum keppnishjólreiðum á einn stað. Vefurinn samhæfir keppnisdagskrá allra félaga sem eru aðilar í ÍSÍ, og heldur utan um keppnir, úrslit, keppendur og aðra tölfræði tengda keppnum á Íslandi. Einnig er að finna á vefnum fréttir um keppnir og keppnishald, óháð hjólreiðafélögum eða einstaklingum.
Nánar hér: hjolamot.is