Samgönguhjólreiðar - öruggar hjólreiðar

Reiðhjólið er ökutæki og hjólreiðamaðurinn er stjórnandi ökutækis.
Hjólreiðamönnum farnast best þegar þeir haga sér líkt og aðrir ökumenn í umferðinni og þegar komið er fram við þá sem ökumenn.

Hjólreiðamenn geta auðveldlega hjólað á götunum og það er oftast fljótlegasta, greiðasta og öruggasta leiðin. Rólegar götur eru þægilegar til hjólreiða fyrir alla sem hafa lært umferðarreglur og kunna að haga sér í umferðinni. Stígar og gangstéttir henta víða, sérstaklega meðfram stofnbrautum og tengibrautum með þungri og hraðri umferð þar sem óþægilegt er að hjóla á götunni og þegar þeir stytta leið.

Á umferðarþungum stofnbrautum með að- og fráreinum og miklum umferðarhraða gilda að hluta aðrar reglur. Um hjólreiðar á stofnbrautum er ekki fjallað hér.

 

 Lykilatriði samgönguhjólreiða

Í umferðinni eru margsskonar ökutæki og öll eru þau jafn rétthá.
Hjólandi umferð er partur af umferðinni og til að tryggja öryggi sitt þarf hún sitt rými. Ef hjólreiðamaður leyfir bílstjórum að ganga á það rými getur hætta steðjað að.

Hjólreiðamaður þarf að hafa sjálfstraust og standa á rétti sínum en ekki á ósveigjanlegan hátt því ef bílstjóri virðir ekki umferðarlög og setur hann í hættu þarf hann að geta gefið eftir.

Þegar tækni samgönguhjólreiða er fylgt verður hegðun hjólreiðamanns skiljanleg og fyrirsjáanleg öðrum ökumönnum og hann öðlast sjálfkrafa sömu stöðu og önnur ökutæki í umferðinni.

Hjólandi vilja eins og aðrir ökumenn komast greiðlega leiðar sinnar í umferðinni á öruggan og þægilegan hátt. Það gerist með samvinnu og samskiptum við aðra ökumenn sem eru eftir þeim lögmálum sem gilda í umferðinni.

 

 Staða reiðhjóls á akbraut

Veldu þér öruggustu staðsetninguna eftir aðstæðum hverju sinni.

Ríkjandi staða.

Veldu ríkjandi stöðu á miðri akrein þegar það er öruggasti valkosturinn t.d. þegar aðstæður eru þannig að ekki er öruggt fyrir bifreið að taka fram úr þér eða þú þarft betra útsýni. Þannig gefur þú skýr skilaboð til þeirra sem á eftir fara að reyna ekki framúrakstur.

Líttu ávallt aftur fyrir þig áður en þú færir þig úr víkjandi stöðu og gefðu skýrt merki með vinstri hönd.

rikjandi

 

Víkjandi staða.

Þegar aðstæður leyfa bifreiðum að fara framúr án þess að setja þig í hættu. Haltu hæfilegri fjarlægð frá kanti eða kyrrstæðum bifreiðum til að forðast niðurföll og aðrar óvæntar hindranir. Bílstjórinn gæti þurft að fara yfir miðlínu og gæti því þurft að bíða aðeins ef umferð er á móti. Reiðhjólið hefur réttinn þarna.

vikjandi
 
 

 

Nægt rými á götu Hjólað í víkjandi stöðu
Hjólað í ríkjandi stöðuHjólað í ríkjandi stöðu

 

 Jákvætt hugarfar

Mikilvægt er að temja sér jákvætt hugarfar og láta ekki skapið hlaupa með sig í gönur. Langflestir bílstjórar reyna ekki að gera á hlut hjólreiðamanna af illum hug. Oftast vita þeir ekki betur. Betra er að veifa og brosa en að öskra og steyta hnefann. Ef tækifæri gefst til er gott að ræða kurteislega við bílstjóra á næstu ljósum ef þeir hafa gert eitthvað óþægilegt.

 

 Dómgreind

Hjólreiðamaður þarf að lesa í umferðina og skilja hvernig hún virkar og sjá fram í tímann hvaða hættur geta steðjað að á leið hans. Hvernig hugsar bílstjóri, hvers vegna minnkar hann hraðann við biðskyldu, hvert beinist athygli bílstjóra í akstri, hvers vegna gleymist hjólreiðamaður sem andartaki áður var framan við bílstjóra þegar hann kemur að hlið hans? Hvaða merki má sjá áður en bíll fer af stað úr innkeyrslu eða bílastæði? Hvaða merki er um að bílhurð geti opnast?

Langflestir íslenskir hjólreiðamenn eru jafnframt bílstjórar. Ef menn hugsa um eigin hegðun í bíl og síðan á hjóli geta menn orðið bæði betri bílstjórar og betri hjólreiðamenn.

Ölvun og hjólreiðar eiga ekki samleið því slysahættan margfaldast.

 

 Að líta aftur og gefa merki

Hjólreiðamenn eiga að gefa stefnumerki í umferðinni eins og aðrir.

Mikilvægt er að líta aftur fyrir sig og gæta að umferð áður en beygt er hvort heldur er til vinstri eða hægri, skipt er um akrein eða stöðu á akrein breytt. Þetta þarf að gera tímanlega áður en breytt er um stefnu eða stöðu og síðan aftur örskömmu áður en það er framkvæmt til að tryggja að aðstæður hafi ekki breyst.

Hafið báðar hendur á stýri meðan hjólað er í beygjunni. Hjólreiðamaður þarf að æfa sig vel í að halda beinni stefnu meðan litið er aftur.
horft aftur og gefið merki

 

Þegar hjólreiðamaður færir sig úr víkjandi stöðu í ríkjandi stöðu á akrein þarf hann að gæta að því að hann hafi pláss í umferðar­straumnum. Ef plássið er ekki nægjanlegt þarf hann að ná augnsambandi við bílstjóra fyrir aftan til að sýna honum að hann þurfi að gefa sér pláss. Hann getur líka gefið stefnumerki til að fá bílstjórann til að gefa pláss.
ekki plass

 

 

 Viðbrögð við aðsteðjandi hættu

Ef hætta steðjar að er mikilvægt er að vera viðbúinn því og geta brugðist við á skjótan hátt. Hjólreiðamaður ætti að vera ákveðinn og standa á rétti sínum en vera jafnframt tilbúinn með önnur viðbrögð ef réttur hans er ekki virtur.

Bremsur á hjóli eru ekki eins öflugar og á bílum og því er það oft betri kostur að beygja frá hættu líkt og sést á teikningunum fyrir neðan.

Fyrstu viðbrögð eru þó oft að bremsa og það getur dugað ef nægt bil er frá hættunni. Æfa þarf neyðarbremsun þar sem hjólreiðamaður hallar sér aftur á hjólinu og bremsar mátulega án þess að fara framfyrir sig.

haetta-aftan-fra
haetta-a-moti
haetta-fra-vinstri
haetta-fra-haegri

 

Bremsum jafnt á báðum

Afturbremsan ein virkar illa

Ef aðeins er bremsað með afturbremsu er stöðvunarvegalengdin of löng

Frambremsan ein getur velt hjólinu

Ef tekið er of fast í frambremsuna er hætta á að missa jafnvægi og kastast fram af hjólinu

 

Báðar bremsur samtímis gefa bestan árangur

Báðar bremsur samtímis gefa bestan árangur og styðstu stöðvunarvegalengd þegar þarf að nauðhemla.

 

 Að hjóla framúr

Ef hjólreiðamaður er að fara framúr röð af bílum í stæði ætti hann að fara inn í umferðarstrauminn tímanlega og hjóla síðan í öruggri fjarlægð frá bíldyrum sem gætu verið opnaðar.

tekid fram ur 1

Ef þarf að taka fram úr nokkrum ökutækjum sem með stuttu millibili skal halda stöðunni þar til komið er fram úr þeim öllum.

tekid fram ur 2

Hjólreiðamenn ættu almennt að fara framúr öðrum ökutækjum vinstra megin við þau. Þó leyfilegt sé að hjóla framúr hægra megin er ekki mælt með því enda skapar það hættu gagnvart bílum sem gætu beygt til hægri.

tekid fram ur 3

Oftast eru raðir bíla í íslenskri umferð það litlar að sjaldan borgar sig að reyna að troðast framfyrir í röð á ljósum.

 

 Að beygja til hægri

Að beygja til hægri virðist einfalt en það þarf að gæta sín á óþolinmóðum ökumönnum fyrir aftan, sem gætu reynt að taka fram úr og beygja síðan til hægri í veg fyrir hjólreiðamann, eins ökumönnum sem koma á móti og beygja til vinstri í veg fyrir hjólreiðamann.

Áður en beygt er til hægri lítur hjólreiðamaður aftur og færir sig inn í umferðarstrauminn og tekur ríkjandi stöðu á akbraut. Síðan er beygjan tekin til hægri í ríkjandi stöðu. Gott er að líta aftur yfir hægri öxl til að fullvissa sig um að bíll sé ekki að beygja til hægri inn í beygjuradíus hjólreiðamanns skömmu áður en beygt er. Síðan er ríkjandi stöðu haldið á hliðargötunni þar til öruggt er að færa sig í víkjandi stöðu.

haegri beygja

 

 

 Að beygja til vinstri - tvær góðar leiðir

Þegar beygt er til vinstri á götu með tveimur akreinum færir hjólreiðamaður sig úr víkjandi stöðu í ríkjandi stöðu í umferðar­straumnum. Best er að gera það tímanlega áður en komið er að gatnamótunum.

Ef hann þarf að bíða vegna umferðar á móti ætti hann ekki að stoppa of nærri miðlínunni og ekki að vera feiminn við að stöðva umferð fyrir aftan sig ef hún kemst ekki með öruggum hætti framhjá. Þegar leiðin er greið er beygt inn í hliðargötuna en gæta þarf að umferð út úr hliðargötunni.

Hjólreiðamenn hafa val um að taka venjulega  vinstri beygju eða skipta henni í tvo áfanga.

vinstri-beygja

 

 

 Ljósastýrð gatnamót

Auðvelt er að hjóla um ljósastýrð gatnamót. Hjólreiðamaður tekur sér ríkjandi stöðu á þeirri akrein sem er sú rétta fyrir þá leið sem hann er á. Hann leggur síðan af stað með umferðarstraumnum þegar græna ljósið kemur. Þegar hann metur það óhætt færir hann sig í víkjandi stöðu og hleypir umferð framúr. Ef bílum er lagt í götu sem hann er að fara í heldur hann ríkjandi stöðu áfram.

Á gatnamótum með mörgum akreinum ætti hjólreiðamaður sem ætlar að halda beint áfram að vera á akrein lengst til hægri. Oftast er þá þægilegast að fara yfir gatnamótin í víkjandi stöðu því óhætt er að hleypa umferð fram úr auk þess sem bílstjórar geta verið óþolinmóðir. Oft er hægri beygjurein fram hjá sjálfum gatnamótunum og eftir að komið er fram hjá henni þarf ekki að hafa áhyggjur af bílum sem beygja til hægri. Ef hjólreiðamaður ætlar að beygja til vinstri tekur hann sér stöðu á viðkomandi akrein í ríkjandi stöðu, tekur beygjuna í henni og færir sig yfir í víkjandi stöðu þegar hann metur það óhætt.

 

 Hringtorg

Þegar bílstjórar koma að hringtorgi beina þeir athygli sinni fram á veginn til vinstri þar sem þeir eiga von á umferð. Mikilvægasta regla hjólreiðamanna í hringtorgum er að hjóla ekki við ystu brún hringtorgsins heldur halda sig þar sem bílstjórar búast við umferð.

Auðvelt er hjóla í gegnum hringtorg með einni akrein. Þá tekur hjólreiðamaður sér ríkjandi stöðu á miðri akrein áður en hann kemur að hringtorginu, stillir hraðann af til að ná opi milli bíla og fer í ríkjandi stöðu á akrein í gegnum hringtorgið og út.

hringtorg

 

Hringtorg með tveim akreinum eru flóknari og á leiðum þar sem umferðarhraði er mikill eru þau einn af fáum stöðum þar sem best er að hjóla á góðum hraða. Hjólreiðamaður tekur sér ríkjandi stöðu tímanlega og hjólar í umferðarstraumnum á þeirri akrein sem hann ætlar að fylgja. Virkja þarf ökumenn til samvinnu þar sem því verður viðkomið. Oftast er best að vera í ytri hring ef fara á út í 1. eða 2. útkeyrslu. Venjulega borgar sig ekki að fara í innri hring nema maður ætli út í 3. útkeyrslu.

hringtorg-1
hringtorg-2

 

Ef hjóla á út í þriðju útkeyrslu má forðast bíla­umferð úr innri hring með því að nota hann.

 

Sjónsvið bílstjóra

Bílstjórar beina athygli sinni aðallega fram á veginn og þar sem þeir eiga von á umferð. Ein mikilvægasta regla samgönguhjólreiða er að hjóla innan þess sjónsviðs. Staðsetning hjólreiðamanns á alltaf að miðast við flæði umferðarinnar en ekki vegbrúnina.

athyglissvið bílstjóra
Athyglissvið bílstjóra

 

Á teikningunni eru hjól­reiða­menn A og B staðsettir þar sem þeir sjást illa og eru því berskjaldaðir.

Hjólamaður C er rétt staðsettur.

Hringtorg

 

 

 Löng ökutæki

Blind svæði þar sem ökumenn sjá ekki til eru stærri í löngum ökutækjum  en fólksbílum eða litlum sendibílum. Ef hjólað er á blinda svæðinu sér bílstjórinn ekki hjólreiðamanninn og hjólreiðamaðurinn sér ekki fram fyrir sig. Ef hjólreiðamaður sér ekki hliðarspegil ökutækisins fyrir framan sig sér ökumaðurinn hann ekki heldur. Hjólreiðamaður ætti að halda sig þar sem hann sést í hliðarspeglinum eða í öruggri fjarlægð fyrir aftan.

trukkar

 

Löngum ökutækjum fylgir sérstök hætta þegar þeim er beygt til hægri því miðhluti ökutækisins fer lengra til hægri en fram- eða afturhlutinn. Hjólreiðafólki stafar hætta af þessum ökutækjum ef þau þrengja að leið hjólafólks við hægribeygju. Framendi langs ökutækis getur líka farið langt inn á gagnstæða akrein i beygjunni.

trukkar
Aldrei á að fara hægra megin fram úr löngu ökutæki nema maður sé alveg viss um að það beygji ekki meðan tekið er fram úr því, ekki einu sinni á hjólarein.

 

 Útsýni bílstjóra

Almennt má gera ráð fyrir því að bílstjórar sjái vel það sem fram undan er á götunni. Við ákveðin skilyrði verða hjólreiðamenn þó að vera meðvitaðir um að útsýni bílstjóra er ekki nógu gott. Þegar sól er lágt á lofti og skín í augu bílstjóra verður hjólandi að hafa allan vara á og getur ekki gert ráð fyrir að bílstjóri sjái sig undan sól. Einnig getur útsýni bílstjóra verið skert í rigningu og miklum vatnsaustri, í þoku eða í blindbyl. Eftir snjókomu getur útsýni verið skert hjá bílstjórum sem ekki skafa rúður nægilega vel.

 

 Að hjóla á stíg eða gangstétt

Nær allir stígar eru með blandaðri umferð gangandi og hjólandi. Almennt ættu allir vegfarendur á stígum og gangstéttum að miða við að í gildi sé hægri umferð, halda sig hægra megin á stígum og að taka fram úr vinstra megin. Á stígum og gangstéttum eru hjólreiðamenn gestir og þurfa að taka fullt tillit til gangandi vegfarenda.

Gangandi vegfarendur geta verið óútreiknanlegir. Hægja þarf vel á áður en menn mætast eða farið er framúr. Gott er að hringja bjöllu kurteislega í hæfilegri fjarlægð því ef hringt er of nálægt geta þeir vikið til hliðar og í veg fyrir reiðhjólið. Að heilsa er góð kurteisi og varar menn einnig við. Gæta þarf að hundum í bandi.

Stígar búa yfir ýmsum hættum

 

Flestir stígar eru hannaðir fyrir hæga gangandi umferð með blindhorunum og kröppum beygjum og þarf að miða hraða við aðstæður. Sjónvegalengd er oft skert á stígum vegna þess að gróður, blindhorn og blindbeygjur takmarka sýn. Blindhorn eru við undirgöng og víða eru blindbeygjur á gangstígum þar sem gróður hefur verið settur of nálægt stíg. Ef hjólreiðamaður ferðast eftir gangstétt eru blindhorn við mörg gatnamót.

Hjólreiðamaður verður að haga hraða miðað við þessar aðstæður. Hann þarf að staðsetja sig til hægri á stíg og minnka hraðann áður en komið er að blindhorni eða blindbeygju og ávallt að vera viðbúinn því að beygja til hliðar eða bremsa. Hringja má bjöllu til öryggis áður en komið er að blindhorni eða blindbeygju.

Í rökkri þarf að sýna sérstaka aðgát því oft er lýsing léleg og vegfarendur án endurskinsmerkja.  Þá þarf hjólið að vera með hvítt ljós að framan og rautt að aftan og miða þarf hraðann við lýsinguna.

Á stígum er oft laus sandur, möl og mold sem minnkar veggrip. Á sumum stígum hafa jarðvegsskipti ekki verið nægilega góð þannig að frostlyfting veldur hólum og holum á stígnum. Að vetrarlagi myndast oft hálka og ísing sem er sérstaklega varasöm í beygjum, við þær aðstæður er mælt með nagladekkjum undir hjólið.

 

Skipting stíga með línu

Fyrir margt löngu voru málaðar línur sem skiptu þröngum útivistar­stígum í enn þrengri að­skilda hjóla- og göngustíga þar sem hjóla átti í báðar áttir eftir einbreiðum stígræmum með tilheyrandi aukinni slysahættu. Reykjavíkurborg lagði þetta kerfi af fyrir nokkrum árum en ákvað jafnframt að láta merkingarnar veðrast í burtu frekar en að fjarlægja þær. Nú er það hægri reglan sem gildir nema skilti eða skýrar merkingar segi til um annað.

 

Að þvera götu af gangstétt eða stíg

Menn álíta oft að þeir séu lausir við bílaumferð á stígum og gangstéttum. Þar þarf samt oft að þvera götur. Á gangstétt gerist það við hver gatnamót og jafnvel við hverja útkeyrslu.

Hjólreiðamenn þurfa að hafa varann á og hægja á sér til að þvera götur og vera vissir um að bíll sé ekki að fara fyrir. Þó að bílstjóri hægi á sér er ekki víst að hann hafi séð hjólreiðamann. Bílstjórar hægja venjulega á sér þegar komið er að biðskyldu eða hraðahindrun eða þrengingu. Það þarf ekki að vera vegna þess að þeir hafi séð hjólreiðamann.

Athygli bílstjóra beinist að þeim stað þar sem þeir búast við mestri hættu þ.e. frá öðrum bílum á götunni. Bílstjóri sem ætlar að taka beygju til hægri beinir athyglinni til vinstri og sér því síður hjólandi sem koma frá hægri á gangstétt eða stíg og ætla að þvera götuna. Þar sem framhjáhlaup eru fyrir bíla til að beygja til hægri getur hættan verið meiri því bílstjórar taka þessa beygju á meiri hraða.

Gott er fyrir hjólreiðamann að ná augn­sambandi við bílstjóra og fara jafnframt ákveðið af stað eins og hann ætli óhikað yfir en vera ekki á meiri hraða en svo að hann geti stöðvað ef bílstjóri stöðvar ekki. Jafnvel þótt bílstjóri horfi á hjólreiðamann er ekki víst að hann sjái hann eða merki hann sem hættu sem þarf að taka tillit til.

stigar-gata-athyglissvid

Hjólreiðamaður sem fer eftir stíg þarf að gæta að öku­tækjum úr fleiri áttum en sá sem fer eftir akrein og er innan athyglissviðs öku­manna. Ökumenn beggja bíla gætu beygt í veg fyrir þann sem fer eftir stígnum en þeir eru líklegri til að taka eftir þeim sem fer eftir akbrautinni.

 

 Leiðaval

Leiðin sem valin er hefur mikil áhrif á hversu ánægjuleg ferðin verður. Hjólreiðamenn hafa oft meira val um leiðir en ökumenn bifreiða.

Góðar leiðir eru með léttri umferð eða litlum hraða en umfram allt nægu rými. Umferðarþung gata getur verið ágæt til reglulegra ferða ef akreinarnar eru nægilega breiðar, gatnamótin hefðbundin og hraðinn hóflegur.

Stígar sem stytta hjólreiðamanni leið eru ágætir. Skjólsælar leiðir og leiðir sem halda hæð í landslagi eru oftast auðveldari en hinar.

 

Árni Davíðsson, hjólafærnikennari og Páll Guðjónsson.

Uppfært í 5. útgáfu 2016.