Hjólreiðar - frábær ferðamáti 2010

Gefið út í samvinnu Íslenska fjallahjólaklúbbsins og Landssamtaka hjólreiðamanna
og dreift í tengslum við Hjólað í vinnuna keppnina

Leiðarinn

Á vorin taka margir sig til og prófa hjólið sem samgöngutæki og skilja bílinn eftir heima. Ekki síst gerist það í vinnustaðakeppninni „Hjólað í vinnuna“.  Þessi bæklingur er gefinn út er til þess að hvetja fólk til hjólreiða og að fræða það um hvernig öruggast og þægilegast er að stunda hjólreiðar.

Sú tækni sem kennd er í kaflanum um samgönguhjólreiðar er ekki ný af nálinni heldur er hún viðurkennd og kennd víða um heim, þótt aðrir en Landssamtök hjólreiðamanna og Íslenski fjallahjólaklúbburinn hafi ekki sinnt þessari fræðslu með skipulögðum hætti á Íslandi hingað til.

Landssamtök hjólreiðamanna stóðu fyrir komu John Franklin á samgönguviku 2007 en hann er einn helsti sérfræðingur Breta í öryggismálum hjólreiðafólks og sérstakur ráðgjafi breskra stjórnvalda. Þar hélt hann nokkur erindi sem hétu samgönguhjólreiðar og þversagnir í öryggismálum hjólreiðafólks. Þessa fyrirlestra má lesa á heimasíðum ÍFHK og LHM og eru þeir skyldulesning fyrir alla sem fjalla vilja um hjólreiðar af einhverri þekkingu. Þar eru kveðnar niður mýtur um meintar hættur hjólreiða með vísan í marktækar rannsóknir. Hjólreiðar eru nefnilega ekki hættulegur ferðamáti heldur meinhollar, ódýrar og umhverfisvænar.

John Franklin skrifaði bókina Cyclecraft sem m.a. er notuð við kennslu í Hjólafærni sem nefnist Bikeability í Bretlandi. Aðeins sérþjálfaðir kennarar fá að kenna Hjólafærni þar og er kennslunni skipt í þrjú stig, fyrsta stigið er fyrir byrjendur á öllum aldri en annað og þriðja stig fjalla um samgönguhjólreiðar á götum.

Landssamtök hjólreiðamanna fengu hjólafærnisérfræðing til landsins árið 2008 sem þjálfaði nokkra Íslendinga eftir breska þjálfunarmódelinu sem Hjólafærnikennara. Þar á meðal voru Árni Davíðsson, sem skrifar um samgönguhjólreiðar í þessum bæklingi, og Sesselja Traustadóttir sem býður upp á námskeið í Hjólafærni ásamt annarri þjónustu í gegnum vefinn hjólafærni.is.

Það er von okkar að þessi bæklingur hjálpi sem flestum að tileinka sér reiðhjólið sem samgöngutæki með þeim jákvæðu áhrifum sem sú hreyfing hefur á heilsuna, umhverfið og budduna.

Stígum á sveif með lífinu og skiljum kyrrsetulífernið eftir.

Páll Guðjónsson, ritstjóri.
Fjölnir Björgvinsson, formaður Íslenska fjallahjólaklúbbsins.
Árni Davíðsson, formaður Landsamtaka hjólreiðamanna.