Þau útbreiddu viðhorf að hjólreiðar séu hættulegar hamla verulega útbreiðslu þeirra. En eru þær hættulegar?
Rannsóknir sýna að fólk sem hjólar reglulega lifir lengur en þeir sem hjóla ekki og þjáist síður af heilsuleysi.

IMG_0789

Þetta var t.d. niðurstaða einnar stærstu og vönduðustu rannsóknar á samgönguhjólreiðum hingað til þegar Copenhagen Center for Prospective Population Studies fylgdist með um 30.000 körlum og konum í 14 ár.

Rannsóknir sýna að reglulegar hjólreiðar eru árangursríkasta leiðin til að lengja lífið og það á líka við um fólk sem stundar aðra hreyfingu. Þetta setur öryggismál hjólafólks í rétt samhengi, því hvaða áhætta sem fylgir hjólreiðum er áhættan augljóslega meiri við að hjóla ekki.

Þegar meðaltími milli alvarlegra slysa við hjólreiðar er um 3000 ár - 40 æviskeið - þá eru hjólreiðar ekki hættulegar, ekki frekar en að ganga.

Ein mikilvægasta uppfinningin

Því hefur verið haldið fram að ef reið­hjólið væri fundið upp í dag, án 150 ára sögu fordóma og ranghugmynda,  yrði því fagnað sem einni mikilvægustu uppfinningunni í baráttunni við fjölmörg þeirra vandamála sem nútímasamfélagið glímir við í dag. (Úr fyrirlestrum John Franklin á Samgönguviku 2007).

Lesið afar upplýsandi grein um þversagnirnar í öryggismálum hjólreiðamanna þar sem farið er faglega yfir málaflokkinn og mýtur sem enn er haldið á lofti skotnar niður með vísan í traustar rannsóknir. John Franklin er einn helsti sérfræðingur í öryggismálum hjólreiðamanna og leiðandi í því fræðslustarfi sem Bresk stjórnvöld hafa innleitt í gegnum Bikeability verkefnið. Þar eru samgönguhjólreiðar kenndar mismunandi aldurshópum með skipulögðum hætti.