IMG_0627

Hjólreiðar eru vistvænn, hagkvæmur og heilsubætandi samgöngumáti.

Ef við lítum fordómalaust á kosti þess að hjóla eru þeir allnokkrir og geta verið stór þáttur í lausn þeirra vandamála sem nútíma samfélag glímir við. Lítum a nokkra þessara kosta.

Heilsufarslegir: Dagleg líkamsrækt stuðlar að bættri líkamlegri og andlegri heilsu. Dagleg hreyfing heldur einnig aukakílóunum í skefjum.  Þá styrkir dagleg hreyfing hjarta- og æðakerfi.

Fjárhagslegir: Hjól kosta peninga en mun minna en bíll.  Rekstarkostnaður er brotabrot af rekstri bíls og það þarf aldrei að taka bensín. Þjóðarbúið þarf ekki að nota gjaldeyri til eldsneytiskaupa og slit á umferðarmannvirkjum er hverfandi.

Umhverfismál:  Enginn útblástur, mun minna af auðlindum jarðar fer í smíði hjóls en bíls. Fullvaxinn einstaklingur þarf aðeins eitt stell. Aðra hluti hjólsins má endurnýja í samræmi við slit.  Reiðhjól þurfa minni samgöngumannvirki en bílar, s.s. bílastæði og götur.

Félagslegir: Þú ert meira úti við. Nálægð þín við aðra samborgara er meiri og stemningin í umferðinni er huggulegri, líkt og almenningur þekkir á göngustígum.

Andlegir: Hjólreiðafólk segir oft sögur af því hvernig það nýtir heimferð að loknum vinnudegi til að hreinsa hugsanir tengdar vinnu úr huganum og skipta yfir í heimagír á leiðinni.

Tengsl við landið og árstíðirnar: Árstíðir og veður hefur  áhrif á hjólreiðamanninn. Öll veður má klæða af sér. Hver árstíð hefur sinn sjarma á hjólinu.  Aðalatriðið er að búa sig eftir aðstæðum hverju sinni, gefa sér góðan tíma og njóta ferðarinnar. Á ferðum út um landið myndast sérstök tengsl við náttúruna þegar rólega er farið yfir. Það er einstök tilfinning að þjóta áfram í góðum meðvindi.

Gleðin: Það kannast flestir við barnslegar gleðitilfinningar tengdar hjólreiðum.  Sækjum þær, stillum hjólin og gefum tilfinningunum endurnýjað líf sem hluta af fullorðinslífi okkar.  

Guðný Einarsdóttir.