Dagleg hreyfing gegnir lykilhlutverki fyrir heilsu og vellíðan fólks alla ævi. Ávinningurinn takmarkast ekki við að sporna gegn ýmsum langvinnum sjúkdómum. Umfram allt hjálpar hreyfing til við að losa um andlega og líkamlega spennu og veitir aukna orku til að takast á við dagleg verkefni.
Almennar ráðleggingar Lýðheilsustöðvar um hreyfingu miða við að fullorðnir hreyfi sig rösklega í minnst 30 mínútur daglega og börn og unglingar í minnst 60 mínútur daglega. Tímanum má skipta upp í nokkur styttri tímabil yfir daginn t.d. 10-15 mínútur í senn.
Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja ferðamáta sem felur í sér hreyfingu líkt og hjólreiðar. Auk þess sem ferðatíminn er nýttur til ókeypis heilsuræktar má t.d. spara kostnað vegna einkabílsins, draga úr umferðarþunga og stuðla að heilnæmara lofti.
Hjólreiðar hafa því fjölþætt gildi fyrir einstaklinga, fjölskyldur, vinnustaði og samfélagið í heild.
Gígja Gunnarsdóttir, Lýðheilsustöð.