IMG_0921

Með því að hvíla bílana oftar getum við sparað útgjöld bæði til eldsneytis og viðhalds. Ef bílum er lagt alfarið má spara enn  meira.

Þegar menn hjóla reglulega batnar heilsan og þá sparast líka fé. Bæði sparar sá sem hjólar dýran rekstur á einkabílnum og vinnuveitandinn sparar líka peninga því veikindaleyfin kosta vinnuveitandann töluvert.


Þetta er ekki það eina.  Ef bílum í umferðinni fækkaði verulega myndi þörfin fyrir bílastæði minnka og jafnframt þörfin fyrir stór umferðamannvirki. Þannig mætti spara háar upphæðir í rekstri og viðhaldi gatnakerfisins. Draga myndi úr loftmengun, svifryki og öðru sem hefur neikvæð áhrif á heilsufar almennings.

Rannsóknir í mörgum löndum svo sem í  Bretlandi, Danmörku, Noregi, Kanada og Ástralíu hafa sýnt að samanlagður sparnaður af eflingu hjólreiða til samgangna geti verið töluverður. Í norskri rannsókn frá 2009 á vegum heilbrigðisyfirvalda er greint frá því að ef 30 ára gamall einstaklingur notar hjólið til samgangna sparast um 30 milljónir norskar krónur og er það varlega áætlað.

Íslenska umhverfisráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu 2009 að efling hjólreiða, ásamt göngu- og almenningssamgöngum  myndi skila hreinum fjarhagslegum ávinningi, losun koltvísýrings myndi minnka töluvert og að aukin hreysti almennings myndi gera ávinninginn meiri.

Í ástralskri vísindagrein eftir Paul Joseph Tranter (2010) segir að með því að ferðast hægar í borgum og þéttbýli, frekar en að reyna að ferðast hratt, myndum við auka skilvirkni í umferðinni, spara tíma, bæta umferðaröryggi, minnka mengun, auka samkeppnishæfni göngu, hjólreiða og almenningssamgangna ... og spara peninga.

Tvær borgir, Óðinsvé í Danmörku og Grimstad í Noregi, hafa séð að með því að efla hjólreiðar batnar heilsa borgaranna. Nokkrum árum eftir að byrjað var bæta aðstæður til hjólreiða með skipulegum hætti og hvetja til hjólreiða með ýmsum hvataverkefnum, kom í ljós í báðum borgunum að veikindadögum fækkaði og  útgjöld í heilbrigðiskerfinu lækkuðu.

Morten Lange