Nýtt fræðsluefni 2016
Kennsluefni um hvernig öruggast er að bera sig að í umferðinni var fyrst gefið út á íslensku af Fjallahjólaklúbbnum 2008 í framhaldi af heimsókn eins helsta sérfræðings á því sviði til landsins. Sú heimsókn á Samgönguviku 2007 var að frumkvæði Landssamtaka hjólreiðamanna og flutti John Franklin hér nokkra fyrirlestar um tækni þá sem kennd er við Samgönguhjólreiðar.
Í tengslum við Hjólað í vinnuna, Landssamtök hjólreiðamanna og fl. var þetta fræðsluefni gefið út í sérútgáfu af Hjólhestinum 2010 sem var merkt Hjólreiðar og innihélt líka fróðleik um kosti hjólreiða fyrir einstaklinginn sem og samfélagið. Einnig var fjallað sérstaklega um ýmsar þær mýtur sem halda fólki frá hjólreiðum og reynt að kveða þær niður.
Í framhaldinu varð til verkefnið Hjólreiðar.is sem er samstarfsverkefni Fjallahjólaklúbbsins og Landssamtaka hjólreiðamanna og stýrt af Páli Guðjónssyni. Á þeim vef er allt þetta efni aðgengilegt og stöðugt bætist við. Veglegur 32 bls. bæklingur var gefinn út aftur 2011 og var í dreifingu til 2013 þegar efnið kom í smækkaðri mynd í nýjum bækling sem kláraðist líka.
Bæklingana má skoða hér: http://hjolreidar.is/um-vefinn
2015 prófuðum við svo nýja leið til að markaðssetja hjólreiðar til þeirra sem lítið eru að hjóla og hönnuðum leikinn Hjólabingó sem bæði var dreift í fyrra og í ár. Allir félagsmenn fengu eintak með Hjólhestinum.
Í ár fékk verkefnið veglegan styrk frá Reykjavíkurborg sem verður meðal annars nýttur til útgáfu á nýjum bæklingum. Einn er eingöngu með kennsluefninu um tækni samgönguhjólreiða. Annar er með ýmsum fróðleik um kosti hjólreiða og kveðnar niður mýturnar sem halda aftur af fólki að prófa hjólið sem samgöngumáta. Þriðji er svo Hjólabingó leikurinn skemmtilegi.
Páll Guðjónsson