Fjallahjólaklúbburinn

Íslenski Fjallahjólaklúbburinn (ÍFHK) er fyrir alla sem nota reiðhjól sem samgöngutæki þrátt fyrir þetta gamalgróna nafn.

Hann er með fjölbreytta dagskrá allt árið sem vert er að skoða; opið hús, léttar hjólaferðir um borgina og fjölbreitt ferðalög sniðin allt frá fjölskyldum til harðjaxla.

Vikulegar kvöldferðir á sumrin

Þar á meðal eru þriðjudags kvöldferðirnar, vikulegar fjölskylduvænar ferðir um höfuðborgarsvæðið fram á haust. Þessar ferðir eru farnar frá Fjölskyldu og húsdýragarðinum kl 19:30 og eru um 2 klst langar. Fyrstu ferðirnar eru stystar en smá lengjast eftir því sem líður á sumarið. Farið er að mestu eftir útivistarstígum eftir fyrirfram ákveðnum leiðum en hraðinn ræðst af hópnum hvert skipti.  Markmið ferðanna er að kynna og skoða hjólaleiðir á höfuðborgarsvæðinu svo reið­hjólið nýtist okkur betur sem samgöngutæki og afþreying. Þessar ferðir henta öllum, byrjendum, görpum og börnum niður í 10 ára í fylgd foreldra eða forráðamanna. 

Hér er dagskrá fyrir hjólaferðir um höfuðborgarsvæðið sem allir ættu að ráða við.

hh 2015 o5 550

Hittumst í opnu húsi.

Á Brekkustíg 2 er opið hús eftir kl. 20 fyrsta og þriðja fimmtudagskvöld hvers mánaðar. Á efri hæðinni er spjallað og gluggað í blöð og bækur á bókasafninu okkar og viðgerðaraðstaðan á neðri hæðinni stendur félagsmönnum til boða til að græja hjólið og nýta sér sérhæfð verkfæri sem ekki allir eiga.

Fylgist með dagskránni á fjallahjolaklubburinn.is, það er alltaf eitthvað í gangi. Skráið ykkur á póstlistann til að fá tilkynningar um viðburði sem oft eru skipulagðir með stuttum fyrirvara því við viljum hafa gaman af lífinu og skipuleggjum okkur ekki um of. Einnig fljóta ýmsar hjólafréttir og fróðleiksmolar með á póstlistann.

Verið ófeimin við að kíkja í heimsókn því opið hús er fyrir allt hjólafólk og vini þeirra.

Klúbbhús Fjallahjólaklúbbsins

Afslættir til félagsmanna.

Allar helstu hjólaverslanir og einnig tugir annarra aðila veita félagsmönnum ÍFHK veglegan afslátt gegn framvísun félagsskírteinis.

Styðjið við starfsemina, takið þátt.

Félagsgjald er aðeins 2500 kr., 3500 kr. fyrir fjölskyldur og 1500 kr. fyrir yngri en 18 ára. Á vef klúbbsins eru upplýsingar um hvernig best er að hafa samband við okkur og ganga í klúbbinn og þá afslætti sem félagsmönnum bjóðast. www.fjallahjolaklubburinn.is