Þessi vefur notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín verði sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Pistlar
Öryggi og persónuvernd á vefnum
Kostir hjólreiða og Samgönguhjólreiðar 2016
Nýtt fræðsluefni 2016
Kennsluefni um hvernig öruggast er að bera sig að í umferðinni var fyrst gefið út á íslensku af Fjallahjólaklúbbnum 2008 í framhaldi af heimsókn eins helsta sérfræðings á því sviði til landsins. Sú heimsókn á Samgönguviku 2007 var að frumkvæði Landssamtaka hjólreiðamanna og flutti John Franklin hér nokkra fyrirlestar um tækni þá sem kennd er við Samgönguhjólreiðar.
Í tengslum við Hjólað í vinnuna, Landssamtök hjólreiðamanna og fl. var þetta fræðsluefni gefið út í sérútgáfu af Hjólhestinum 2010 sem var merkt Hjólreiðar og innihélt líka fróðleik um kosti hjólreiða fyrir einstaklinginn sem og samfélagið. Einnig var fjallað sérstaklega um ýmsar þær mýtur sem halda fólki frá hjólreiðum og reynt að kveða þær niður.
Í framhaldinu varð til verkefnið Hjólreiðar.is sem er samstarfsverkefni Fjallahjólaklúbbsins og Landssamtaka hjólreiðamanna og stýrt af Páli Guðjónssyni. Á þeim vef er allt þetta efni aðgengilegt og stöðugt bætist við. Veglegur 32 bls. bæklingur var gefinn út aftur 2011 og var í dreifingu til 2013 þegar efnið kom í smækkaðri mynd í nýjum bækling sem kláraðist líka.
Bæklingana má skoða hér: http://hjolreidar.is/um-vefinn
2015 prófuðum við svo nýja leið til að markaðssetja hjólreiðar til þeirra sem lítið eru að hjóla og hönnuðum leikinn Hjólabingó sem bæði var dreift í fyrra og í ár. Allir félagsmenn fengu eintak með Hjólhestinum.
Í ár fékk verkefnið veglegan styrk frá Reykjavíkurborg sem verður meðal annars nýttur til útgáfu á nýjum bæklingum. Einn er eingöngu með kennsluefninu um tækni samgönguhjólreiða. Annar er með ýmsum fróðleik um kosti hjólreiða og kveðnar niður mýturnar sem halda aftur af fólki að prófa hjólið sem samgöngumáta. Þriðji er svo Hjólabingó leikurinn skemmtilegi.
Páll Guðjónsson
Um vefinn og verkefnið
Eflum hjólreiðar
Tilgangur verkefnisins Hjólreiðar.is er að efla hjólreiðar á Íslandi með því að auka öryggi með fræðslu, hvetja til hjólreiða með því að kynna kostina og eyða mýtunum og ekki síst að breyta ímynd hjólreiða.
Samgönguhjólreiðar
Sestu bara á hjólið og hjólaðu. Bara þú og hjólið, báðar hendur á stýri og af stað með þig. Þetta er ekki flóknara en það. Það er samt ágætt að kynna sér tækni samgönguhjólreiða til að auka öryggið og efla sjálfsöryggið.
Kostir hjólreiða
Á þessum vef eru taldir upp ótal kostir hjólreiða, svo sem lengra líf og betri heilsa. Til að njóta kostanna þarftu bara að flétta hjólreiðum inn í daglegu rútínuna. Það þarf engar sérstakar hjólagræjur eða hjólafatnað. Það er ekkert sjálfsagðara en að hjóla ferða sinna í þeim fatnaði sem þú klæðist vanalega, hvort sem það eru gallabuxr eða fínni fatnaður, í strigaskóm eða á háum hælum.
Mýtum eytt
Reiðhjólið hefur mikilvægu hlutverki að gegna í nútímasamfélagi en er oft fórnarlamb fordóma og ranghugmynda. Það þarf að draga hjólreiðarnar af jaðrinum og inn í hversdagsleikann þar sem almenningi finnst jafn sjálfsagt að hjóla á milli staða eins og að nýta sér aðra fararmáta.
Fyrirmyndir
Á hjólreiðar.is er ætlunin að reyna að sýna að íslendingar hjóla líka með stíl. Ljósmyndarinn fangar lífið á götum Íslands og víðar, fólk að fara ferða sinna á reiðhjóli í sínum venjulega fatnaði.
Ef þú rekst á mynd af þér sem þú vilt láta taka út eða fá hana senda þarftu bara að senda okkur póst. Óheimlt er að endurbirta myndirnar nema til persónulegra nota og skal þá uppruni koma skýrt fram ásamt tengli á hjólreiðar.is. Auðsótt mál er að fá að nota myndirnar vegna annarar útgáfu en vinsamlega hafið samband við okkur fyrst með tölvupósti.
Viltu taka þátt?
Ef þú átt skemmtilegar myndir í þessum dúr máttu endilega senda þær á netfangið okkar með smá texta um þær.
Ritstjóri
Verkefnið hjólreiðar.is er hugarfóstur Páls Guðjónssonar sem jafnframt ritstýrir því. Verkefnið er unnið í nánu samstarfi við Landssamtök hjólreiðamanna og Íslenska fjallahjólaklúbbinn sem jafnframt styrkja verkefnið ásamt fjölmörgum aðilum í gegnum tíðina. Reykjavíkurborg er stærsti styrktaraðilinn 2015 og 2016.
Allar ljósmyndir © Páll Guðjónsson nema annað sé tekið fram að vörumyndum undanskyldum undir flokknum föt og fylgihlutir.
Netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Hjólreiðar - 2013
Gefið út í samvinnu Íslenska fjallahjólaklúbbsins og Landssamtaka hjólreiðamanna
og dreift m.a. í tengslum við Hjólað í vinnuna keppnina
Leiðarinn:
Fræðslustarf LHM og ÍFHK
Landssamtök hjólreiðamanna og Fjallahjólaklúbburinn standa að baki þessari útgáfu. Markmiðið með útgáfunni er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi hjólandi við aðra vegfarendur.
Þetta er fjórða útgáfa þessa kennsluefnis sem við gáfum fyrst út 2008. Fyrstu þrem útgáfunum var dreift í 26.500 eintökum auk þess sem það er aðgengilegt á heimasíðum okkar. Páll Guðjónsson þýddi og aðlagaði fyrstu útgáfuna en Árni Davíðsson vann textann betur í síðari útgáfum og ýmsir aðrir hafa lagt til punkta og gert þessar útgáfur mögulegar. Öll vinna við hönnun, útgáfu og dreifingu er unnin af sjálfboðaliðum.
Þessi tækni samgönguhjólreiða er kennd um allan heim og oft með skipulögðum hætti af yfirvöldum. Hjólafærni á Íslandi bíður upp á kennslu í samgönguhjólreiðum ásamt margskonar þjónustu, fyrirlestrum, ástandsskoðun reiðhjóla með Dr. Bæk og fl.
Til marks um hversu alþjóðleg skilaboðin eru má nefna að veggspjöldin þrjú hér aftaná eru úr umferðaröryggisherferð sem er nú í gangi í Singapore og fengum við hönnuðinn til að útbúa þau á íslensku fyrir okkur.
Umferð hjólandi hefur ríflega 2-3 faldast á fáum árum og fjöldi gangandi vegfarenda hefur einnig aukist. Það eru jákvæðar fréttir en aukinni umferð hefur fylgt meiri núningur milli þessarra hópa vegfarenda sem notar að mestu leyti sama stígakerfi.
Öryggi er ekki bara fólgið í aðbúnaði heldur einnig atferli. Allir þátttakendur í umferðinni þurfa að sýna tillitsemi til að umferðin á stígum og götum gangi slysalaust og greiðlega fyrir sig.
Hlutur hjólamenningar í öryggi hjólandi er vanmetinn. Þau lönd þar sem öryggi hjólandi er mest einkennast ekki bara af góðum aðbúnaði hjólandi heldur líka af jöfnum hraða og ríkri hjólamenningu. Við sem hjólum ættum að reyna að tileinka okkar góða hjólamenningu. Vera tillitsöm, hjóla á jöfnum hraða, hægja á þar sem sýn fram á veginn er takmörkuð, nota bjölluna, bjóða góðan daginn og fara varlega fram hjá gangandi vegfarendum.
Árni Davíðsson og Páll Guðjónsson
Hjólreiðar - frábær ferðamáti 2010
Gefið út í samvinnu Íslenska fjallahjólaklúbbsins og Landssamtaka hjólreiðamanna
og dreift í tengslum við Hjólað í vinnuna keppnina
Leiðarinn
Á vorin taka margir sig til og prófa hjólið sem samgöngutæki og skilja bílinn eftir heima. Ekki síst gerist það í vinnustaðakeppninni „Hjólað í vinnuna“. Þessi bæklingur er gefinn út er til þess að hvetja fólk til hjólreiða og að fræða það um hvernig öruggast og þægilegast er að stunda hjólreiðar.
Sú tækni sem kennd er í kaflanum um samgönguhjólreiðar er ekki ný af nálinni heldur er hún viðurkennd og kennd víða um heim, þótt aðrir en Landssamtök hjólreiðamanna og Íslenski fjallahjólaklúbburinn hafi ekki sinnt þessari fræðslu með skipulögðum hætti á Íslandi hingað til.
Landssamtök hjólreiðamanna stóðu fyrir komu John Franklin á samgönguviku 2007 en hann er einn helsti sérfræðingur Breta í öryggismálum hjólreiðafólks og sérstakur ráðgjafi breskra stjórnvalda. Þar hélt hann nokkur erindi sem hétu samgönguhjólreiðar og þversagnir í öryggismálum hjólreiðafólks. Þessa fyrirlestra má lesa á heimasíðum ÍFHK og LHM og eru þeir skyldulesning fyrir alla sem fjalla vilja um hjólreiðar af einhverri þekkingu. Þar eru kveðnar niður mýtur um meintar hættur hjólreiða með vísan í marktækar rannsóknir. Hjólreiðar eru nefnilega ekki hættulegur ferðamáti heldur meinhollar, ódýrar og umhverfisvænar.
John Franklin skrifaði bókina Cyclecraft sem m.a. er notuð við kennslu í Hjólafærni sem nefnist Bikeability í Bretlandi. Aðeins sérþjálfaðir kennarar fá að kenna Hjólafærni þar og er kennslunni skipt í þrjú stig, fyrsta stigið er fyrir byrjendur á öllum aldri en annað og þriðja stig fjalla um samgönguhjólreiðar á götum.
Landssamtök hjólreiðamanna fengu hjólafærnisérfræðing til landsins árið 2008 sem þjálfaði nokkra Íslendinga eftir breska þjálfunarmódelinu sem Hjólafærnikennara. Þar á meðal voru Árni Davíðsson, sem skrifar um samgönguhjólreiðar í þessum bæklingi, og Sesselja Traustadóttir sem býður upp á námskeið í Hjólafærni ásamt annarri þjónustu í gegnum vefinn hjólafærni.is.
Það er von okkar að þessi bæklingur hjálpi sem flestum að tileinka sér reiðhjólið sem samgöngutæki með þeim jákvæðu áhrifum sem sú hreyfing hefur á heilsuna, umhverfið og budduna.
Stígum á sveif með lífinu og skiljum kyrrsetulífernið eftir.
Páll Guðjónsson, ritstjóri.
Fjölnir Björgvinsson, formaður Íslenska fjallahjólaklúbbsins.
Árni Davíðsson, formaður Landsamtaka hjólreiðamanna.