Sífellt bætast áhugaverð og falleg reiðhjól í hóp þeirra fararskjóta sem renna eftir götum borgarinnar, eigendum sínum til gagns og gamans. Nýjasta hjólið í þessum flokki kom frá Hollandi í sumar sem leið og tekur hvorki fleiri né færri en fjóra í sæti. Þetta er gæðagripur í eigu Olgu Hrafnsdóttur, sem undanfarin 9 ár hefur búið í Haag með fjölskyldu sinni, eiginmanni og þrem dætrum, Sölku, Emblu og Mirru. Elsta dóttirin, Salka sem er 6 ára hjólar óhikað á hjólinu með móðurinni og systur hennar láta fara vel um sig á meðan.
Þegar Olga fluttist til Hollands á sínum tíma átti hún fjallahjól að íslenskum sið en var fljót að losa sig við það í skiptum fyrir klassískt hjól sem hentaði aðstæðum betur. Enda eru fjallahjól vart sjáanleg á götunum þar ytra. “Og enginn hjólar með hjálm, nema kannski útlendingar,” bendir hún á. Hér njóta hjólreiðamenn forgangs og ökumenn eiga lögum samkvæmt að taka fullt tillit til þeirra. Þetta er sannkölluð Mekka hjólreiðanna því lífið er sannarlega gott og hollt fyrir hina hjólandi. Við notuðum hjólin í allar okkar ferðir, hvort sem var að fara í og úr vinnu, kaupa í matinn, skutla börnunum í skólann, nú eða fara niður að strönd. Þau hjónin keyptu sér að auki hjól með körfu sem rúmaði fjölskylduhundana tvo og það var því fríður flokkur sem reið úr hlaði þegar stefnan var tekin niður á strönd.
Fjölskylduhjólið hennar Olgu er smíðað í Hollandi og kostar slíkt hjól um 1700 evrur, en hægt er að fá þau helmingi ódýrari notuð. Þetta eru þó hreinir smáaurar miðað við notagildið og ekki síst miðað við að kaupa og reka bíl í Hollandi. Skilaboðin eru enda skýr frá hinu opinbera; notum hjólin. “Hjólreiðasmíði í Hollandi tekur líka mið af mjög breiðum notendahópi,”bendir Olga á. “Þarna gefur að líta sniðug þríhjól fyrir hreyfihamlaða sem eru útbúin með sérstöku hengi fyrir stafi svo nokkuð sé nefnt. Einnig eru til barnaútgáfur af körfuhjólum að ógleymdum hjólum sem menn hjóla á liggjandi. Það geta því allir hjólað og til marks um hversu Hollendingar eru áhugasamir um að rækta hjólamenningu sína, er börnum strax kennd undirstöðuatriðin þegar þau byrja í skóla 4 ára gömul.” Þótt Hollendingar mættu vera mjög ánægðir með hjólahefðina í landinu, segir Olga að aldrei hafi borið á neinu monti eða sýndarmennsku til að ganga í augun á túristum og auglýsa sérkenni landsins. Hjólreiðar eru þvert á móti eðlilegur hluti samfélagsins.
Athyglisverð er lýsing Olgu á því að jafnvel þótt flestir noti hjólin, þá er bílnum ekki alveg úthýst í Hollandi. “Margir foreldrar sem ég kynntist í leikskóla dóttur minnar hafa þann háttinn að fara flestra sinna ferða á hjólinu en þegar lengri ferðir standa fyrir dyrum, þá er hægt að kaupa aðgang að litlum rauðum bílum fyrir hóflegt verð undir merkjum Green Wheel.”
Það hafa því verið töluverð viðbrigði fyrir Olgu og fjölskylduna að flytja aftur til Íslands. Og þó. “Þegar ég flutti til Hollands, þá voru hjólreiðar á Íslandi frekar flokkaðar sem sport en ég greini breytingu þar á með því að þær eru farnar að ryðja sér til rúms sem samgöngumáti. Okkur er ekkert að vanbúnaði með að þróa íslensku hjólreiðamenninguna áfram af krafti. Nú er veðrið orðið svo gott hér, auk þess sem nóg er af plássi fyrir hjólabrautir. Það þarf í rauninni ekki mikið til að skapa gott hjólreiðasamfélag hér.
Að lokum bendir hún á að oft hafi veðrið í Hollandi ekki verið neitt til að hrópa húrra fyrir. Hjólreiðafólki mætir oft leiðindaveður. “En fólk klæðir það bara af sér og heldur sínu striki,” segir hún að lokum.
Áhugaverðir reiðhjólahlekkir:
beertransportfietsen.nl og tmannetje.nl
Myndir: Geir Ragnarsson