Á vorin er algengt að dekkin undir hjólunum springi. Það er í beinum tengslum við fjölgun hjóla í umferðinni og illa sópaða stíga og gangstéttar. Lítið dekkjaviðgerðasett, 2-3 felguþrælar og pumpa, geta bjargað degi hjólreiðamannsins.

Það er ekki nauðsynlegt að taka hjólið undan. Maður byrjar á að skrúfa ventilinn af – líka litla hringinn sem er alveg upp við felguna. Geymið lausu hlutina á öruggum stað svo þeir týnist ekki.


Nú er að koma örlitlu lofti í slönguna og finna gatið. Oft er hægt að heyra hvar loftið lekur út, eins er efri vörin býsna næm á loftlekann og þriðja ráðið er að komast með slönguna í vatn. Ef lekinn er í ventlinum eða alveg við hann er best að taka upp nýja slöngu, setja hana í og gleymir viðgerðinni.

Þegar gatið er fundið raspar maður vel allt svæðið í kringum gatið svo límið nái betra gripi.

Bótalím á að fara bæði á slönguna og bótina; þekja vel og leyfa líminu að „anda” í tvær mínútur áður en bótinni er þrýst yfir gatið.

Áður en að slangan er aftur sett upp á gjörðina og inn í dekkið er mikilvægt að leita eftir sprunguvaldinu. Litla glerbrotið eða stálþráðurinn úr götusópunum eru þekktustu skemmdarvargarnir. Dekkið er strokið að innanverðu og eins er mikilvægt að kanna hvort nokkuð sé í gjörðinni sem sker sundur slönguna. Áður en slanga er sett í dekk á að setja talkum (barnapúður) á slönguna og inn í dekkið (ef það er við hendina). Slangan lagar sig þá betur að dekkinu. Það minnkar hættu á því að brot komi á slönguna og gat komi á hana vegna nuddsára eða vegna þess að dekk snýst í átaki á gjörðinni.

Ventlinum er stungið aftur á sinn stað og festur vel. Næst er pumpað örlitlu lofti í slönguna þegar hún er komin inn í dekkið – áður en dekkið er þvingað aftur upp á felguna. Mjög gott er að nota felguþrælana til þess að þvinga dekkið aftur til baka upp á felguna. Gætið þess samt að þrælarnir komist ekki í návígi við slönguna og búi til nýtt gat; það er þekkt og mjög spælandi...

Góðir vinnuhanskar eru fínir gegn óhreinum dekkjunum og vernda fingurna fyrir óþægilegum klemmum. Gæta þarf vel að því að bremsurnar séu rétt stilltar eftir viðgerðina.

Loftþrýstingurinn er oftast steyptur í dekkið. Á venjuleg fjallahjóladekk er algengast að mælt sé með 40-65 pundum. Flestum finnst 40 pundin nóg loft í dekkin
Unnið upp úr grein eftir Jens Rasmussen.
Myndirnar eru eftir Rune Pedersen.