Hvernig hjól á ég að fá mér? Einföld spurning en svarið er langt frá því að vera einfalt. Mjög fjölbreytt úrval er til af hjólum en hvað af þeim hentar mér? Forsendurnar sem við sjálf verðum að setja eru: verð, notkunarsvið, stærð og áætluð notkun.
Verðið setur manni óhjákvæmilega takmörk. Ég hef hins vegar lengi haldið því fram að það sé ekki dýrt að kaupa reiðhjól. Setji maður verðið í samhengi við önnur farartæki og rekstur þeirra kostar reiðhjól smápeninga. Yfirleitt er mikill gæðamunur á ódýrari týpunum á meðan gæðamunurinn er minni á milli dýrustu hjólanna. Hinn gullni meðalvegur er vandrataður í frumskógi hjólabúðanna en verðmunur er oftast nær fljótur að borga sig í ánægju og endingu.Notkunarsvið er mjög fjölbreytt og það auðveldar leitina í búðunum verulega ef maður hefur aðeins leitt hugann að því hvernig á að nota hjólið. Malbik eða malarslóðar, í vinnuna eða ferðalagið, torfærur eða vegir o.s.frv. Fjallahjól er hentugasti kosturinn því það má nota í allt mögulegt. Hins vegar er það ekki besti kosturinn t.d. til vinnu eða í innanbæjarsnatt sem er væntanlega allt á malbiki. Þá væri götu- eða blendingshjól (e. Hybrid) miklu betri kostur þar sem stærri gjörð og mjórri dekk renna betur og gefa þar af leiðandi meiri nýtni og hraða. Líkamsstaðan á götu-, blendings- og svokölluðum keppnishjólum (þessi með hrútastýri) er mjög mismunandi. Götuhjólið gefur manni þægilega upprétta setu, keppnishjólið frambeygða stöðu til að minnka loftmótsstöðu og blendingshjólið er mitt á milli, ekki ósvipað fjallahjólinu. Áætli maður að hafa einhvern farangur með sér er vert að gera ráð fyrir honum á hjólinu í körfu eða í tösku á bögglabera. Bakpoki er ekki góður kostur vegna álags á mjóbak nema ef hann er léttur eða leiðin stutt.
Þegar talað er um stærð á hjóli er átt við stærðina á stellinu sjálfu en ekki dekkjastærð (stellstærð er mæld frá miðju sveifarhúsi upp eftir hnakkpípu að þverpípu milli hnakkpípu og stýrispípu). Dekkjastærð er oftast 26” á fjallahjólum og 28” á götuhjólum fyrir fullorðna. Það er mjög persónubundið hvaða stærð verður fyrir valinu en þumalputtareglan er að hafa rúmlega hnefa-bil frá stelli og upp í klof sé staðið yfir hjólinu, sé miðað við fjallahjól. Þetta bil má vera minna á götuhjólum.
Ef áætluð notkun hjólsins er mikil er rétt að skoða þann búnað sem endist lengst og þarfnast lítils viðhalds. Góðar diskabremsur endast a.m.k. fjórum sinnum lengur en púðabremsur eða V-bremsur. Það er vandasamara að stilla diskabremsurnar en þarf að gera mun sjaldnar. Diskabremsurnar eru dýrari búnaður en ódýrari til lengri tíma litið. Nöf með innbyggðum gírum eru mun endingarbetri en opnir gírar þar sem keðjan fer á milli misstórra tannhjóla. Þessi drif eru þyngri og dýrari en allt að því bilana- og viðhaldsfrí. Kevlar-dekk eru dýrari en hverrar krónu virði. Þessi dekk eru léttari og hafa meira þol gegn glerbrotum og oddhvössum hlutum.
Ljós eru nauðsynleg, bæði aftan og framan. Til eru margar tegundir af ljósum knúin af rafal (dynamo) en fáar þeirra eru til hér á landi enn þá. Slík ljósasett eru aðeins dýrari en hleðsluljós en kostirnir eru peningasparnaður því að þau þurfa engar rafhlöður og svo verða þau aldrei rafmagnslaus nema svo ólíklega vilji til að þau bili.
Aukabúnaður er til af ýmsum toga og mis- nauðsynlegur. Bretti, bögglaberi og lás er algengastur og sjálfsagður. Svo er hægt að tína allskonar aukahluti á hjólið eins og hentar hverju notkunarsviði. Þar má nefna; standara, stýrisenda, pumpu, hraðamæli, drykkjarbrúsa, brúsastatíf, körfu, keðjuhlíf, keðjupúða, hnakktösku með bótum og verkfærasetti og svona mætti lengi telja. Það er ágæt regla að byrja á fáum aukahlutum. Auðvelt er að fjárfesta í óþarfa og ónauðsynlegum aukahlutum í upphafi. Réttara er að byrja með lámarksbúnað og bæta svo við hægt og rólega og láta þörfina ráða för. Með því móti má spara nokkrar krónur og óþarfa þyngd á hjólinu.
Þegar leitað er að rétta hjólinu er ágæt regla að skoða sem flestar verslanirnar og bera saman helstu þætti þeirra hjóla sem koma til greina og endilega að fá að prófa sem mest til að fá raunverulegan samanburð. Ábyrgð og þjónusta vegur líka þungt því allt getur bilað – meira að segja reiðhjól.
Að lokum þegar hringurinn fer að þrengjast og valið stendur ef til vill á milli tveggja eða þriggja hjóla á svipuðu verðbili og í sambærilegum gæðaflokki vandast valið. Þá er um að gera að láta tilfinninguna ráða og leyfa sérviskunni að ráða för varðandi lit, stíl og velja það hjól sem uppfyllir flestar (eða allar) væntingar manns óháð nokkrum krónum til eða frá.
Fjölnir Björgvinsson