Hjólað á fullum snúning

_MG_6325

Fyrsta hjólið kom um fermingu og upp frá því snerust hjólin, snerust og snerust. Hjólað var um lönd og strönd, keppt í götuhjólreiðum með HFR og aldrei spáð í bílpróf. Framtíðin var björt: listaháskólinn opinn í Osló, námið gekk vel, svo kom norska jentan, litli Óðinn fæddist og hamingjan rík. Það var málað og spáð, ölkollan ljúf; sopinn var góður og stóllinn valtur og hnakkahöggið slæmt.

Það var heill mánuður á gjörgæslu þar sem ekki var vitað hvoru megin lífið lenti.

Það lifði áfram. En lífið var breytt; á stólnum voru fjögur hjól. Um sinn. Með endurhæfingu og hægum bata náðist styrkur til að stíga upp úr stólnum. En allskonar var orðið.

Ingþór flutti aftur til Íslands. Hann sá Lilju; þau fóru saman á kaffihús og bíó, svo aftur í bíó og aftur á kaffihús. Hún keyrði, hann gekk eða tók strætó. Hann keyrði ekki og hjólið var fortíðin.

Þegar 8 ár voru liðin frá högginu örlagaríka fóru félagarnir að þrýsta á; það er allt hægt á hjóli. Allir geta hjólað. Nei, hvað – þetta gengur ekki; ég nenni þessu ekki.... og þó...

Fékk að prófa hjólið hjá Magga Bergs. Spastiski fóturinn flæktist í keðjuna, slóst inn á við; betri spelkur og hjólaskór. Hann sló til. Með hjólaþenkjandi lækni og hjólandi sjúkraþjálfara var mælt með öktækinu fyrir Ingþór hjá Sjúkratryggingum. Hann fékk 65% styrk til kaupa á farartækinu. Og það kom til landsins. Mberg færði bremsur og gíra á hjólið þeim megin sem mátturinn er í lagi hjá Ingþóri og gatan var greið.

Í hverri viku eykst kraftur og þrek. Á átta vikum hefur hjólatíminn aukist úr hálftíma í tvo tíma. Ánægjan er best.  Annað - eins og svefn, þróttur, þrek og kraftur hefur batnað og eflst. Sjúkraþjálfarinn er kátur; Ingþór er kátur; Lilja og Svana litla njóta með. Svona er lífið.

Sesselja  Traustadóttir (okt. 2010)

Myndir  Magnús Bergs.

_MG_6336

 

_MG_6342